Lindex og UNICEF fagna samstarfi um Sannar gjafir

-þriðja árið í röð sem tekið er höndum saman um Sannar gjafir

Þriðja árið í röð taka Lindex og UNICEF höndum saman og bjóða viðskiptavinum upp á Sannar Gjafir sem bæta hag barna um heim allan.  Á milli kl. 13 og 16 verður í Smáralind myndataka með jólasveininum, kynning frá UNICEF og 30% afsláttur af öllum yfirhöfnum.

Sannar gjafir eru hjálpargögn fyrir börn í neyð og eru seld í verslunum Lindex sem falleg jólakort. Kortin eru skreytt með myndum af íslensku jólasveinunum sem Brian Pilkington teiknaði. Hvert jólakort inniheldur hjálpargögn sem UNICEF sendir til barna í neyð. Dæmi um þær gjafir sem eru í boði er til dæmis næringarmjólk Askasleikis fyrir vannærð börn, en í hverri 1.500 kr. gjöf eru 10 skammtar af orkuríkri þurrmjólk sem notuð er til að meðhöndla allra veikustu börnin á næringarmiðstöðvum og sjúkrahúsum sem UNICEF starfar með. Kertasníkir sendir barni í neyð hlýtt teppi, Stekkjastaur útvegar 20 skammta af jarðhnetumauki og Pottaskefill tryggir 7.500 lítra af hreinu vatni með vatnshreinsitöflum. Þessar gjafir eru allar til sölu í verslunum Lindex um allt land. Einnig er hægt að versla Sannar gjafir á lindex.is og sannargjafir.is.

“Okkur þykir rosalega vænt um þetta samstarf og erum viðskiptavinum og starfsfólki Lindex ævinlega þákklát fyrir að hjálpa okkur að útvega hjálpargögn fyrir börn sem búa nú við erfiðar aðstæður,“ segir Vala Karen Viðarsdóttir hjá UNICEF á Íslandi. „Strax eftir jólin sér UNICEF síðan til þess að koma hjálpargögnunum til þeirra barna sem á þurfa að halda.“ segir Vala ennfremur.

Viðskiptavinir Lindex stutt dyggilega við UNICEF- um 20 milljónir frá upphafi

Nú þegar hafa viðskiptavinir Lindex verið duglegir í baráttunni fyrir bættum hag barna og hafa um 4.000 Sannar gjafir selst hjá Lindex frá upphafi. Jafngildir það að 40.000 skömmtum af næringarmjólk eða 80.000 skömmtum af jarðhnetumauki sem UNICEF hefur getað notað í þágu barna þar sem þörfin er mest vegna þessa einstaka samstarfs.

Að auki hefur Lindex á Íslandi og UNICEF starfað saman að öðrum verkefnum í gegnum tíðina eins og uppbyggingu menntastarfs í sumum af fátækustu löndum heims, stuðning við Dag Rauða nefsins, neyðarviðbrögð við náttúruhamförum og sérstakar barnafatalínur tileinkaðar baráttu UNICEF fyrir bættum hag barna í heiminum.

Á þessum tíma hefur Lindex á Íslandi, í krafti viðskiptavina sinna, stutt baráttu UNICEF samtals um tæplega 20 milljónir króna fyrir bættum hag barna í heiminum.

“Samstarf okkar við UNICEF hefur verið mikilvægur þáttur í samfélagsverkefnum sem við látum okkur varða hér hjá Lindex og við erum sérlega stolt og ánægð að þessi jól munum við fara kyrfilega yfir 20 milljóna króna markið í baráttunni fyrir bættum hag barna í heiminum,” segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi.

UNICEF dagur Lindex

Til að undirstrika samstarfið fagna UNICEF og Lindex saman í Smáralind kl. 13-16 í dag. Í boði verður kynning frá UNICEF þar sem gestum og gangandi gerist kleift að setja á sig sýndarveruleikagleraugu þar sem skyggnst er í veruleika barna í flóttamannabúðum. Hildur, tónlistarkona mun taka nokkur vel valin lög í anda jólanna auk þess sem jólasveinninn verður á staðnum og börnum og fjölskyldum þeirra boðið að taka mynd með sveinka.