Ókeypis sending ef verslað er fyrir 10.000 kr eða meira

Heimsfrumsýning ”Click & Collect” á Laugavegi

-einstök verslun þar sem saman kemur hefðbundin verslun og netverslun

 

Á Laugavegi 7, mun nú í fyrsta sinn verða boðið upp á alla vörulínu Lindex í gegnum sértækt vöruúrval sem er á staðnum í sambland við framúrskarandi þjónustu netverslunar lindex.is.  Boðið verður upp á afhendingu samdægurs alla virka daga en jafnframt er þetta fyrsta Lindex verslunin í heiminum sem opnuð er með  “click and collect” fyrirkomulagi.  Risaspjaldtölvur prýða veggina og netstofa er á staðnum til að tryggja frábæra upplifun enn frekar.

 

Í dag opnar sértæk verslun í miðbænum þar sem saman kemur úrval úr barna-, dömu- og undirfatnaði ásamt snyrtivörum Lindex sett í samhengi við sértæka þjónustu við val úr netverslun lindex.is.  Með þessu verður viðskiptavinum gefin aðgangur að allri vörulínu Lindex með nýjum og spennandi hætti.

 

“Þegar við opnuðum undirfataverslun fyrr á árinu tókum við strax eftir því að mikil eftirspurn var eftir öðrum vörum úr okkar frábæra úrvali dömu- og barnafatnaðar.  Við höfum því síðasta hálfa árið unnið með arkitektum Lindex að þessari einstöku verslun sem sameinar þægindin sem felast í því að versla á netinu og að geta mátað og skoðað vöruna “ segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi.

 

Hönnun verslunarinnar einkennist af skandinavísku yfirbragði og er rauði liturinn ríkjandi í smáatriðum og í gegnum verslunina sem dregur fram einkenni vörumerkisins.  Þægindin eru undirstrikuð með sérstakri netstofu þar sem notaleg stemmning tekur á móti viðskiptavinum þar sem þeir geta fengið sér kaffibolla á meðan þeir skoða allt vöruúrval Lindex á risaskjám.

 

Aukin þjónusta í breyttu verslunarmynstri

 

Í versluninni, sem er um 130 fm. að stærð geta viðskiptavinir verslað allar nýjustu línur barna-, dömu- og undirfatnaðar Lindex á staðnum en auk þess verslað á lindex.is og fengið afhent samdægurs alla virka daga í lok dags.   Einnig munu þeir sem versla að heiman geta sent pöntun sína á Laugaveginn og fengið pantanir sem berast fyrir kl. 15:00 afgreiddar samdægurs.

 

Með þessu móti verður unnt að fyrirbyggja eitt af höfuðviðfangsefnum þessa vaxandi verslunarforms en það er að geta skoðað og mátað, skilað og skipt með auðveldum hætti.

 

“Miðbæjarsvæðið er þéttbýlasta svæði landsins þar sem stutt er á milli staða.  Það má því leiða líkum að því að íbúar í nágrenninu eigi auðvelt með að nýta sér þjónustu sem þessa.  Þar að auki er mikill fjöldi ferðamanna sem sækja okkur heim í miðborginni og með afhendingu samdægurs erum við að gera þessum viðskiptavinahóp góð skil. “ segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir,.  “Netverslun er sífellt að ryðja sér meira og meira til rúms hér á landi en í Danmörku fer til dæmis 25% verslunar með fatnað og skó fram í gegnum netið.  Þessi staðreynd og síbreytilegt markaðsumhverfi hvetur okkur til að taka skref eins og þessi sem við erum að gera í dag.  Við erum því spennt að geta boðið allt okkar vöruúrval hér í miðbæ Reykjavíkur,” segir Lóa ennfremur.

 

“Við hjá Lindex erum knúin áfram á því að gera upplifun viðskiptavinarins sem jákvæðasta.  Við viljum bjóða upp á spennandi og einfalda verslunarupplifun á öllum sviðum.  Hér fær viðskiptavinurinn tækifæri til að versla með hætti sem á sér ekki hliðstæðu.  Það er virkilega ánægjulegt fyrir okkur að gera þetta fyrst hér á Íslandi,” –segir Johan Isacson, yfirmaður umboðsmála hjá Lindex.

 

Verslunin á Laugavegi 7 opnar kl. 17:00 í dag.